Hvernig get ég lært að forrita?

Það eru margar leiðir til að læra forritun.


Sem dæmi má nefna:

  • Háskólanám

  • Netnámskeið

  • Myndbönd, bækur og greinar

  • Vera í kringum aðra forritara

  • Prófa að búa eitthvað til



Háskólanám

Vissulega er það engin krafa að fara í háskólanám til að læra að forrita en samt sem áður er það leið sem margir velja. Það hefur þann kost að þá er komin rútína í kringum námið þar sem þú ert að umgangast aðra í sömu sporum og hefur vettvang til að spyrja og þróa þína þekkingu, bæði sem einstaklingur og einnig sem hluti af hóp.


Svo má ekki gleyma að nefna að háskólanám hjálpar manni að mynda tengsl við atvinnulífið á svo marga vegu:

  • Vísindaferðir til fyrirtækja

  • Lokaverkefni unnið í samvinnu með fyrirtæki

  • Möguleiki á starfsnámi hjá fyrirtæki (sem hefur oft endað með ráðningu að loknu námi)

  • Tengingar við samnemendur (mögulega fær vinur þinn starf og getur þá mælt með þér eða þið stofnið eitthvað saman, hver veit?)



Netnámskeið

Það eru alls konar netnámskeið í boði til að læra forritun og er bæði hægt að greiða fyrir þau eða hreinlega bara finna eitthvað frítt á t.d. Youtube.


Dæmi um netnámskeið:

  • Lærðu um tiltekið forritunarmál (eins og t.d. Python)

  • Lærðu að búa til tölvuleiki

  • Lærðu að búa til vefsíður

  • Lærðu að búa til öpp

  • Lærðu um gervigreind


Lærðu um tiltekið forritunarmál

Það er oft talað um að fyrsta forritunarmálið sem þú lærir sé það erfiðasta af því þá er verið að byggja upp grunnþekkingu sem nýtist svo alls staðar annars staðar í forritunarheiminum. Það skiptir ekki öllu máli hvaða forritunarmál þú byrjar að læra en gott væri ef það gæti svo nýst í eitthvað sem þú hefur áhuga á eins og t.d. ef þú hefur áhuga á vefforritun þá er mjög gott að kunna vel inn á JavaScript forritunarmálið sem dæmi.


Lærðu að búa til tölvuleiki

Það sem flestir gera þegar þeir vilja búa til tölvuleik er að nýta leikjavél (game engine) eins og t.d. Godot til að geta hafist handa. Þá ertu með öll þau tól sem þú þarft til að setja saman tölvuleik og getur þá lesið documentation eða fundið myndbönd sem skýra tiltekna virkni nánar.


Lærðu að búa til vefsíður

Þegar þú opnar vefsíðu þá ertu í rauninni að hlaða upp HTML, CSS og JavaScript skrám sem vafrinn þinn síðan birtir sem notendaviðmót.

Það sem þú sérð þegar þú opnar vefsíðu er oft kallað "framendinn" og öll virkni sem gerist bak við tjöldin eins og t.d. það að kerfið neitar að skrá þig inn af því þú slóst inn rangt lykilorð, er oft kallað "bakendinn". Þannig ef þú heyrir einhvern tala um að hann sé "full stack vefforritari" þá er sú manneskja bæði að setja fram útlit á síðu og einnig að sjá um bakendavirknina. Það er ýmist hægt að sérhæfa sig eða vinna í báðum hliðum og eina í stöðunni er bara að prófa og sjá hvað þér finnst spennandi.


Lærðu að búa til öpp

Flutter og React Native eru með vinsælustu framework-unum þegar kemur að því að forrita öpp fyrir síma og spjaldtölvur. En það er svo rosalega margt annað til líka þannig um að gera að sjá hvað þú finnur á veraldarvefnum og kanna hvað þér finnst áhugavert.


Lærðu um gervigreind

Það er stanslaus þróun í gangi í heimi gervigreindar þannig ef þú vilt taka þátt í þeirri þróun þá er nóg af netnámskeiðum að finna til að hefjast handa.



Myndbönd, bækur og greinar

  • Í stað þess að horfa á þetta vanalega á Youtube, hvað með að kíkja annað slagið á einhver áhugaverð myndbönd tengd forritun?

  • Það eru til fullt af bókum, meira að segja námsbækur sem skólar nota til kennslu og það er ekkert sem kemur í veg fyrir að þú nælir þér í svoleiðis bækur til að læra á eigin vegum

  • Varðandi greinar á netinu, þá er hægt að læra margt af þeim því þetta er oft fólk með reynslu að skrifa um hvaða leið var farin til að leysa tiltekinn vanda og það er mjög "hollt" að sjá mismunandi skoðanir þar sem í lok dags er ekki nein lausn "rétt" heldur eru alltaf kostir og gallar sama hvaða leið er farin



Vera í kringum aðra forritara

Það getur verið einsamalt að læra forritun á eigin vegum og því hjálpar það töluvert að upplifa sig sem hluta af hóp.



Prófa að búa eitthvað til

Svo er kannski besta leiðin til að læra að búa eitthvað til! Það bæði eykur áhuga þinn til að læra af því það mun nýtast í það sem þú vilt búa til og einnig eykur það innsæi þitt gagnvart því sem þú lærir því núna sérðu notagildið betur.

Það er fínt að skoða myndbönd eða greinar á netinu til að sjá hvernig er hægt að gera eitthvað en það er síðan undir þér komið hvernig þú endanlega vilt nýta það sem þú sérð og lest um. Þú þarft nefnilega ekki að læra allt til að loksins geta búið til eitthvað því þú getur byrjað smátt og lært það sem þú þarft að vita af til að geta búið til eitthvað aðeins stærra í hvert skipti.